ACT stendur fyrir Acceptance and commitment therapy sem er erfitt að þýða en þessi meðferðarnálgun byggir á hugmyndafræði hugrænnar atferlismeðferðar og atferlisgreiningar. Þetta er gagnreynt meðferðarform þar sem áhersla er lögð á að gangast við stöðu mála (acceptance) og tileinka sér núvitund í bland við breytingar á hegðun. Markmiðið er ekki að losna við óþægilegar tilfinningar, hugsanir eða skynupplifanir heldur gangast við því að þetta sé eðlilegur hluti af lífinu, það sé í rauninni eðlilegt að upplifa erfiðleika, það sé órjúfanlegur hluti af lífinu. Þetta felur ekki í sér uppgjöf heldur að vinna út frá stöðunni eins og hún er og lifa lífinu í samræmi við það sem skiptir fólk máli (gildi þess). Fólki er því kennt að vera opið fyrir óþægilegum tilfinningum, hugsunum og líkamlegum einkennum í stað þess að forðast alla erfiða upplifun. Með þessu er verið að stuðla að því að bæta lífsgæði fólks og auka þrautseigju gagnvart aðstæðum sem koma upp.
ACT er mjög sjálfseflandi. Áhersla er lögð á að opna augu fólks fyrir því að það stendur frammi fyrir vali á hverjum einasta degi og staðreyndin er sú að hjá því verður ekki komist, við verðum alltaf að taka ákvörðun. Á hverjum einasta tímapunkti höfum við val um hvað við ætlum að gera, segja og leggja áherslu á. Þegar valið endurspeglar innri gildi fólks er það almennt sátt í eigin skinni en þegar hegðun fólks færir það frá því lífi sem það vill lifa, er afleiðing aukin vansæld. Það sem gerir þetta erfitt er að við sækjumst í vellíðan og forðumst það sem er erfitt. Við reynum að stjórna því hvernig okkur líður, hvað við hugsum og hvað við finnum fyrir líkamlega og oft á tíðum er forðunarhegðun það sem eina sem okkur finnst virka. Vandinn er að forðunarhegðun færir okkur frá því lífi sem við viljum lifa þar sem við drögum úr virkni og þátttöku í ýmsum athöfnum daglegs lífs. Uppskeran verður einmanaleiki, tómleiki og félagsleg einangrun. Við þessar aðstæður er eðlilegt að uppskeran verði upplifun á því að lífið sé innihaldslaust.
Markmiðið með ACT er að auka sálrænan sveigjanleika fólks. Fjöldi rannsókna hafa sýnt að aukinn sálrænn sveigjanleiki hefur jákvæð áhrif á lífsgæði fólks. Sálrænn sveigjanleiki vísar í getu fólks til að takast á við aðstæður sem koma upp og laga sig að þeim á opinn, meðvitaðan og einbeittan hátt. Til þess að ná þessum árangri er unnið út frá sex grundvallarþáttum í ACT:
- Samþykki/gangast við: Skapa rými fyrir allar upplifanir, hvort sem þær koma innan frá eða utan frá, séu jákvæðar eða neikvæðar. Að gangast við óþægilegum tilfinningum, hvötum og skynupplifunum í stað þess að reyna að bæla þær, ýta þeim í burtu eða streitast á móti (ströggla). Þetta felur í sér að taka eftir þeim upplifunum sem birtast hverju sinni án þess að reyna að breyta þeim. Þetta geta verið tilfinningar, minningar, ytri aðstæður, hegðun annars fólks og heilsufarsleg einkenni svo eitthvað sé nefnt. Ekkert af þessu höfum við stjórn á, nema að takmörkuðu leyti, en með því að gangast við upplifunum okkar opnast möguleiki á vali gagnvart því hvernig við ætlum að bregðast við.
- Aftenging: Að ná ákveðinni fjarlægð á hugsanir sínar með því að taka eftir óhjálplegum hugsunum, viðhorfum, minningum án þess að láta þessi hugarferli ráða því sem er gert hér og nú. Þetta felur í sér að horfa á hugsun sína í stað þess að horfa frá hugsun sinni. Oft verðum við svo gagntekin af hugsunum okkar að við missum tengslin við annað í kringum okkur. Með aftengingu náum við að sjá að hugsun er bara hugsun, hvort sem hún er ljúf eða sár.
- Tenging við líðandi stundu, núvitund: Að tengjast því sem er að gerast hér og nú og mæta því með opnum huga og af forvitni. Mannshugurinn ver oft miklum tíma í að hafa áhyggjur af framtíðinni og velta sér upp úr fortíðinni og hefur þetta oft mikinn kostnað í för með sér þar sem við framkvæmum oft ekki mikilvægar athafnir hér og nú fyrir vikið. Nálgun núvitundar gengur út á að gangast við, eða vera meðvitaður um, það sem er að gerast á líðandi stundu og taka þeirri upplifun með opnum huga og af áhuga. Núvitund þýðir að vera með hugsunum sínum eins og þær eru, án þess að grípa þær eða ýta þeim í burtu.
- Sjálfsgát: Að læra að fylgjast með sjálfum sér og skoða nánast utan frá. Læra að við erum ekki hugsanir, tilfinningar eða ákveðnar ímyndir sem við höfum af okkur sjálfum. Þetta felur í sér aukna sjálfsvitund.
- Gildi: Gildi varða það sem þig langar allra mest að standa fyrir sem manneskja, hvernig þú vilt haga þér í daglegu lífi. Þau eru ekki um það sem þig langar í eða þann árangur sem þú vilt ná heldur varða þau ákveðna hegðun sem þú sýnir. Ef þú ert meðvitaður um þín gildi ná þau að vera leiðandi í lífinu og benda á hvað það er sem skiptir raunverulegu máli. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að gildi eru eitthvað sem við náum aldrei fyllilega heldur eitthvað sem við lifum í samræmi við.
- Markviss hegðun: ACT er mjög atferlismiðuð nálgun og leggur mikla áherslu á að fólk geri breytingar á lífi sínu. Þær breytingar skilgreinast hinsvegar í samræmi við gildi fólks og leiða þannig til þess að lífið verður innihaldsríkara. Fólk er því hvatt til að gera breytingar á hegðun sinni í samræmi við sín gildi og þannig ná að lifa innihaldsríku lífi þrátt fyrir verki og vanlíðan sem eru í sjálfu sér hluti af lífinu.